// archives

Sporðdrekinn

This tag is associated with 1 posts

Stjörnuspáin 2014

Netkaup Stjörnuspáin 2014

Gefum, öflum og höfum gaman 

 

Hrúturinn 21.mars – 19. apríl

 

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Athafnaorka

Pláneta: Mars
Höfuðskeppna: Eldur
Litur: Rauður
Málmur: Járn
Steinar: Rúbín, blóðsteinn, jaspis
Líkamshluti: Höfuð
Frægir hrútar Vigdís Finnbogadóttir, Marlon Brando, Billi Holiday, Miró, Diana Ross, Leonardo da Vinci, Descartes, Þórhildur Þorleifsdóttir, Spencer Tracy og Betty Davis.

Hrúturinn hefur farið í gegnum dramatískar breytingar í lífi sínu undanfarin tvö ár. Einkum hrútar sem fæddir eru í mars og fyrstu vikunni í apríl. Sviptingar verða ekki eins miklar árið 2014 en eru þó alls ekki yfirstaðnar og þær verða oftar gleðilegri.
Fyrstu mánuði ársins má hrúturinn alls ekki gleyma sér. Hann þarf að fara öðru hverju inn í heimabankann því ef hann gleymir stund og stað í sinni stórbrotnu tilveru í ár verða fjármálin komin í kaldakol í sumar. Með sjálfsaga og yfirsýn verður þetta allt í lagi. Ástæða þess að hrúturinn verður ráðvilltur er sú að valmöguleikarnir verða svo margir, á það við um ást, vinnu og allt utan þess. Líklegt er að hrúturinn verði öfundaður af þessu líflega ári en hann verður svo upptekinn að hann mun ekki spá í það fyrr en einhver umhverfist. Auk fjárhagsins eru veiku hliðar ársins heilsufarið og hrúturinn verður að passa að fara til tannlæknis. Árið verður eitt það rómantískasta sem hrúturinn hefur upplifað. Á það einkum við fyrri parts árs en í ágúst hægist á atburðarásinni. Ný ástarsambönd verða flókin en ástríðufull. Langtímasambönd styrkjast í ár.

 

Nautið 20.apríl – 20. maí

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Stöðugleiki
Pláneta: Venus
Höfuðskeppna: Jörð
Litur: Blár
Málmur: Kopar
Steinar: Safír, jaði
Líkamshluti: Háls
Fræg naut Elizabeth II, Cher, Daniel Day Lewis, Jóhannes Páll páfi, Ólafur Ragnar Grímsson, Halldór Laxness, Florence Nightingale, Eva Peron, Ingólfur Margeirsson og Saddam Hussein.

Nautið  Hugsanir nautsins og íhygli er á tímamótum og það mun spyrja sig spurninga sem það hefur ekki spurt áður. Nú í desember hefur þessara áhrifa þegar gætt og þetta mun vara í nokkur ár.
Síðla árs mun nautið uppskera launa- eða stöðuhækkun í vinnunni og ef það vinnur sjálfstætt munu verk þess hljóta lof og vekja eftirtekt. Nautið er fjárfestir í eðli sínu en í ár má það búa sig undir að græða ekki mikið en það mun þó heldur ekki lenda í neinum skakkaföllum. Mikilvægt er að nautið hugi að hjarta, höfði og hálsi. Það er viðkvæmt í janúar, júlí og ágúst.
Það að nautið finni þessa þörf til að færa lífið upp á æðra plan getur birst í námi. Það mun ekki fara til London eða þeirra staða sem það heimsækir ár eftir ár heldur rannsakar það nýja staði á ferðalögum. Nautið laðar að sér fólk sem er í sömu pælingum, á samskipti við andans fólk, heimspekinga, jafnvel miðla. Einhleyp naut eiga ástarævintýri erlendis, heillast af háskólaprófessor, kynnast listfræðingi eða fólki úr menningarheiminum. Eilítið eldri maður eða kona verður á vegi þess og rómantíkin svífur yfir vötnum. Engu að síður munu öll sambönd þróast hægt í ár.
Gift naut skulu hafa það í huga að grasið er ekki alltaf grænna hinum megin.

 

Tvíburinn 21. maí – 20. júní

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Tjáskipti
Pláneta: Merkúr
Höfuðskeppna: Loft
Litur: Gulur
Málmur: Kvikasilfur
Steinar: Agat, raf
Líkamshluti: Hendur og lungu
Frægir tvíburar Bob Dylan, Kristján Jóhannsson, John Wayne, Guðrún Agnarsdóttir, Paul McCartney, Bubbi Mortens, Hrafn Gunnlaugsson, Thomas Mann, Tom Jones og Josephine Baker.

Tvíburinn  Það verður mikið að gera í félagslífi tvíburans árið 2014 og hann kynnist fólki í starfi sínu sem mun gegna þýðingarmiklu hlutverki í lífi hans og starfi á næsta ári, þetta er líklega valdamikið fólk. Tvíburinn heillar með gáfum, hnyttni og framkomu. Hann nær einstökum tökum á þeim hæfileikum sínum og komist hann í tæri við þjóðhöfðingja, yfirmenn stórfyrirtækja og aðrar stórstjörnur munu þeir hinir sömu biðja hann um að sitja með sér til borðs.
Hins vegar mun reyna á gömul vináttusambönd og kvarnast upp úr hans innsta hring. Hann er hinsvegar heppinn með nýtt fólk sem hann mun kynnast um mitt ár og eignast lífstíðarvini.
Tvíburinn mun geta lagt meiri pening fyrir en áður. Upp úr miðjum ágúst er gott að láta slag standa fyrir þá sem ganga með viðskiptahugmynd í maganum sem og óskrifaðar skáldsögur.
Tvíburinn verður ekkert sérstaklega upptekinn af ástamálum sínum í ár. Hann mun þó heilla einhvern sem honum hefði ekki dottið í hug að tengja við sig.

 

Krabbinn 21.júní – 22. júli

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Tengsli
Pláneta: Tungl
Höfuðskeppna: Vatn
Litur: Grár
Málmur: Silfur
Steinar: Perla, mánasteinn
Líkamshluti: Brjóst og magi
Frægir krabbar Díana prinsessa, Ernest Hemingway, Ingmar Bergman, Franz Kafka, Bryndís Schram, Mike Tyson, Rose Kennedy, Raymond Chandler, Tom Cruise og Stefán Hilmarsson.

Krabbinn stendur í stórræðum í ár og verður undir heilmiklu álagi. Stórræðin tengjast starfsvettvangi. Hann mun þurfa að bregðast skjótt við tækifærum og þótt krabbinn kunni því best að fá drjúgan umhugsunarfrest verður sá frestur ekki alltaf í boði – hann mun þurfa að grípa gæsina. Að vísu er það svo að rétta starfið virðist ætla að finna hann ef hann finnur það ekki sjálfur. Hann verður að grípa gæsina og þá verður útkoman líka glæst. Hætt er við að krabbinn ofgeri sér árið 2014 því heima fyrir gæti hann að þurft að standa í ströngu. Bæði hefur krabbinn nóg að gera en maki hans verður líklega í sömu sporum og börn ganga kannski að mestu sjálfala fyrri part árs, sem er ólíkt krabbaheimilinu alla jafna. Tryggið reykskynjara og önnur tæki, heimilið virðist viðkvæmt á fleiri sviðum. Afgangstíma ætti að nýta til að rækta fjölskylduna, annars gætu orðið árekstrar og þá helst í apríl.
Einhleypir krabbar eiga villt ár í ástalífinu og nokkrir elskhugar og ástkonur eru í kortunum. Krabbinn ætti að velja vel hverjum hann hleypir inn á gafl til sín.

 

Ljónið 23. júlí – 22. ágúst

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Sjálfstjáning
Pláneta: Sól
Höfuðskeppna: Eldur
Litur: Appelsínurauður
Málmur: Gull
Steinar: Demantur, bergkristall, kórall
Líkamshluti: Hjarta og bak
Fræg ljón Napóleon, Mata Hari, Emily Bronte, Carl Jung, Thor Vilhjálmsson, Antonio Banderas, Árni Sigfússon, Mae West, Bill Clinton og Madonna.

Ljónið  Fyrstu sex mánuði ársins þarf ljónið að vera varkárt og huga að heilsunni. Það þarf einnig að hemja skap sitt og jafnvel kyngja stoltinu. Ljónið gæti nú þegar verið hætt lestri en þessi atriði eru lykillinn að því að það sé ekki óhamingjusamt í enda árs.
Heima fyrir þarf það til dæmis að gera málamiðlanir og taka á óánægju sinni og annarra. Það má hafa það í huga að í ár þarf það kannski frekar að dekra við aðra í stað þess að láta dást að sér. Engar áhyggjur, kæra ljón, árið 2015 uppskerðu dúllerí og dekur fyrir þessa vinnu ef þú leggur alúð við hana. Raunar mun ljónið finna mikinn mun um miðjan júlí og litríkt eðli þess og stórbrotin sál fá að njóta sín. Ágæt tækifæri í starfi gefast einnig síðla árs. Ljón ættu ekki að fara út í fjárfestingar í ár og halda vel utan um aurinn.
Einhleyp ljón gætu hitt einstakling sem hittir þau í hjartastað og raunar gæti ást lífs þeirra orðið á vegi þeirra á þessu ári. Einnig það verður seinni hluta árs. Raunar gæti ljónið þá farið að upplifa árið sem eitt það skemmtilegasta og líflegasta sem það hefur lifað og þá verða fyrstu mánuðir þess fljótir að gleymast. Það eru dásamleg ár framundan, árið 2015 og 2016 eru á við galdra.

 

Meyjan 21.ágúst – 22. september

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Skipulagning
Pláneta: Merkúr
Höfuðskeppna: Jörð
Litur: Brúnn og grænn
Málmur: Kvikasilfur
Steinar: Smaragður, malakít
Líkamshluti: Meltingarkerfi
Frægar meyjur Gene Kelly, Steinunn Sigurðardóttir, Sophia Loren, Sean Connery, Claudia Schiffer, Michael Jackson, Greta Garbo, Leonard Cohen og Ómar Ragnarsson.

Meyjan verður óvenjukærulaus í ár. Hún hefur minni áhyggjur af heilsufari sínu, sumarblómin setur hún niður hist og her og hún leiðréttir jafnvel ekki þágufallssjúka. Þetta kann að hljóma undarlega en ástæðan er sú að ekkert af því sem ýtir vanalega undir smámunasemina er fyrir hendi. Heilsan er góð, heimilislífið rólegt, góð sambönd halda áfram að vera góð og tíminn sem framundan er sá átakaminnsti og afslappaðasti í áraraðir. Með minni áhyggjum er meiri tími til að njóta og tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt verða ótalmörg í ár. Ungar meyjur, námsmenn til dæmis, munu þó hafa minni frítíma og námið verður meira krefjandi árið 2014 en áður.
Meyjan mun á einn eða annan hátt hafa undir höndum mikla peninga á þessu ári. Það gæti verið arfur, það gæti verið lán, það gæti verið óvæntur launabónus. Hvað sem það er þá er það eitthvað stórt. Þar sem þetta verða óvenjumiklir peningar þarf hún að sýna mikla ráðdeild.
Meyjan getur valið úr vonbiðlum ef hún er makalaus. Ef einhver á brúðkaup í vændum árið 2014 er það fólk sem fætt er í meyjarmerkinu.

 

Vogin 23.september – 22. október

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Jafnvægi
Pláneta: Venus
Höfuðskeppna: Loft
Litur: Ljóslár
Málmur: Kopar
Steinar: Lapis lazuli, rósarkvarts
Líkamshluti: Nýru
Frægar vogir John Lennon, Julio Iglesias, Doris Lessing, Cervantes, Tim Robbins, Silja Aðalsteinsdóttir, Ólafur Jóhann Ólafsson, Bera Nordal, Ben Gurion og Buster Keaton.

Vogin  Án tafar þarf vogin að gera lista yfir óþarfa í lífi sínu. Matarklúbbar og annar félagsskapur sem hún finnur sig ekki lengur í fer á þann lista. Hún þarf líka að kaupa þau heimilistæki sem þarf til að létta á heimilishaldinu. Árið verður afar annasamt og sérlega viðburðaríkt.
Í ár mun rætast úr vandamálum sem hafa íþyngt fjölskyldunni lengi. Vogin er hins vegar líkleg til að taka á sig meiri fjárhagslegar byrðar. Í þeim skuldbindingum er þó falin blessun því á næstu árum mun vogin njóta ávinnings af þeim. Þá á hún sterkara bakland fjárhagslega nú en oft áður. Vogin er stjörnustarfsmaður árið 2014 og fær ríkulega athygli fyrir verk sín í ár.
Ástamálin eru spennandi en á tíðum brösótt, sérstaklega í langtímasamböndum. Ástina sjálfa mun ekki skorta en það reynir engu að síður á hjónabönd. Besta ráðið er að vogin segi strax hvað henni býr í brjósti. Kannski þarf einfaldlega að skerpa á verkaskiptingu og venja sig af ósiðum.
Einhleypar vogir munu fljótlega í byrjun árs haga sér eins og ástsjúkir unglingar. Þetta er samt ekki góður tími til að binda sig, gangið hægt inn í rósagarðinn.

 

Sporðdrekinn 23. október – 21. nóvember

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Tilfinningadýpt
Pláneta: Plútó
Höfuðskeppna: Vatn
Litur: Dökkrauður
Málmur: Járn
Steinar: Granat, ópall, túrmalín
Líkamshluti: Kynfæri
Frægir sporðdrekar Þorsteinn Pálsson, Charles Brosnan, John Cleese, Kevin Kline, Valdís Gunnarsdóttir, Flosi Ólafsson, Björk, Danny Devito, Goldie Hawn og Demi Moore.

Sporðdrekar eru óvenju einbeittir í ár. Ákveðið og alvarlegt fas mun skila sér í vinnuafköstum og hann kemst yfir allt sem hann ætlar sér. Sporðdrekin…
Sporðdrekar eru óvenju einbeittir í ár. Ákveðið og alvarlegt fas mun skila sér í vinnuafköstum og hann kemst yfir allt sem hann ætlar sér. Sporðdrekinn er að velta tilverunni fyrir sér og þá sérstaklega þeirri staðreynd að hann er að eldast. Þetta á ekki bara við um eldri sporðdreka heldur gera ungir sporðdrekar sér grein fyrir að lífið er stutt og hvert ár skiptir máli til að ná sínum markmiðum. Þetta mun reynast námsmönnum frábærlega, þeir uppskera góðar einkunnir.
Sporðdrekinn fer frekar á fyrirlestra, söfn og í fjallgöngur í ár en út á galeiðuna. Um leið koma til hans ferskar hugmyndir. Sporðdrekinn ætti án efa að vera alltaf með minnisbók á náttborðinuþví góðar hugmyndir geta gleymst þegar þær eru margar og jafnvel komið fyrir í draumi.
Ástamálin verða fyrirferðarlítil í ár og sporðdrekinn ekki sérlega félagslyndur. Ef hann hittir einhvern er líklegt að sú manneskja verði honum ofarlega í huga síðla þessa árs og það samband mun rista djúpt. Ef sporðdrekinn á í ástarsambandi fyrri part árs er líklegt að það fjari fljótt út. Heimilislíf sporðdreka i sambandi verður gott. Sporðdrekinn útbýr sér jafnvel heimaskrifstofu, svo notalegt er andrúmsloftið þar.

 

Bogmaðurinn 22.nóvember – 21 desember

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Innsæi
Pláneta: Júpíter
Höfuðskeppna: Eldur
Litur: Fjólublár
Málmur: Tin
Steinar: Túrkís, tópas
Líkamshluti: Grindarhol, mjaðmir, læri
Frægir bogmenn Guðrún Gísladóttir, Nostradamus, Maria Callas, Julie Harris, Hermann Gunnarsson, Jeff Bridges, Steven Spielberg, Woody Allan, Einar Kárason og Frank Sinatra.

Bogmaðurinn  Fréttir af fjármálum bogmannsins eru dásamlegar. Þetta er eitt besta ár í langan tíma og bogmanninum, sem yfirleitt helst frekar illa á peningum, mun finnast þetta með ólíkindum sjálfum. Vinir hans og fjölskylda munu jafnvel leita til hans með ráðgjöf því hann hefur öll sín mál á hreinu og gott betur en það. Bogmenn í sambandi munu að auki geta stutt maka sinn í því að afla meiri tekna eða ná fram launahækkun.
Bogmaðurinn verður hamingjusamur árið 2014, sáttur í vinnu og litlar breytingar eru framundan eða átök. Hann er ólíklegur til að skilja og einhleypir bogmenn eru að vísu líka ólíklegir til að fara í samband. Þess í stað mun bogmaðurinn vera félagslega virkur, jafnvel kynnast nýjum félagsskap og hann mun njóta þess að geta ferðast og bókað sig á fimm stjörnu hótel og keypt sér dýrt útilegudót. Þótt einhleypir bogmenn muni ekki stofna til formlegs samband munu þeir upplifa rómantísk ævintýri og það er styttra heim til þess félaga en bogmanninn grunar. Hann býr líklega í allra næsta nágrenni, jafnvel sömu götu.

 

Steingeitin 22.desember – 19. janúar

 

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Metnaður
Pláneta: Satúrnus
Höfuðskeppna: Jörð
Litur: Svartur, dökkgrár
Málmur: Blý
Steinar: Svartur ónyx, obsídían
Líkamshluti: Hné, liðamót, húð, bein
Frægar steingeitur Davíð Oddsson, Nicolas Cage, Ólafur Skúlason, Nixon, Henri Matisse, Janis Joplin, Mao, Bjarni Felixson, Anthony Hopkins og Denzel Washington.

Steingeitin vill yfirleitt slæmu fréttirnar fyrst. Hún þarf á öllu sínu að halda til að ná endum saman og sambandið við stórfjölskylduna gæti tekið sinn toll. Ef til vill verða dramatískar breytingar á fjölskylduhögum hennar en þó er líklegra að vandamálin tengist fólki sem stendur henni afar nærri en býr þó ekki undir sama þaki og hún.
Þá koma góðu fréttirnar. Félagslífið er ótrúlega skemmtilegt, rómantískt og fjörugt. Og það sem gerist líklega er það að fjármálin munu líða fyrir það að steingeitin gleymir sér, það verður svo gaman og kreditkortið verður kannski notað aðeins um efni fram.
Á vinnustað mun steingeitin standa sig vel og ætti ekki að þurfa að hafa of miklar áhyggjur, hún mun pluma sig vel. Hennar aðalstarf og erfiða í ár er fjölskyldan sem þarf á henni að halda.
Einhleypar steingeitur verða uppteknar árið 2014 og þurfa að strauja sparifötin fyrir hvert brúðkaupið á fætur öðru, hjá vinum sínum en ekki sjálfum sér. Í kringum þá viðburði verður til andrúmsloft sem minnir helst á atriði úr Four Weddings and a Funeral. Rómantískt í meira lagi.

 

Vatnsberinn 20. janúar – 18. febrúar

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Félagslegar hugsjónir
Pláneta: Úranus
Höfuðskeppna: Loft
Litur: Himinblár
Málmur: Úraníum
Steinar: Aquamarín, túrmalín
Líkamshluti: Fótleggir, ökklar, blóðrás
Frægir vatnsberar Elín Pálmadóttir, John Travolta, Michael Jordan, Karólína prinsessa, Galileo, Ronald Reagan, Gertrude Steiner, Vanessa Redgrave, Virginia Woolf og Lord Byron.

Vatnsberinn  Það mun taka vatnsberann tíma að átta sig á þeim tækifærum sem bjóðast honum árið 2014, einkum hvað atvinnu snertir. Ef hann fylgist vel með atvinnuauglýsingum sem og nýjum möguleikum á núverandi vinnustað finnur hann jafnvel og fær draumastarfið.
Vatnsberinn mun ekki þurfa að hafa áhyggjur af fjármálum og það kemur skemmtilega á óvart enda býst vatnsberinn ekki við þyngri pyngju. Ef til vill fylgir það nýja starfinu; hærri laun. Því getur vatnsberinn eytt orkunni í að hafa minni áhyggjur og hlaða batteríin.
Árið verður ekki áfallalaust en það sem kemur upp á, til að mynda heima fyrir, er hægt að leysa auðveldlega og fljótt enda um minniháttar spennu að ræða.
Ef vatnsberinn er að bíða eftir einhverju fjöri í stefnumótabransanum getur hann hallað sér aftur og eytt tíma sínum í annað en að horfa í kringum sig. Um miðjan júlí getur hann svo prófað að kveikja á tölvunni því líklegt er að hann muni eiga tilhugalíf á Skype eða á Facebook-spjalli. Þetta gæti jafnvel endað með blindu stefnumóti. Ef vatnsberinn er nú þegar í sambandi mun hann, einnig síðari part árs, upplifa tíma sem minnir helst á hveitibrauðsdagana og tilhugalífið.

 

Fiskurinn 19.febrúar – 20. mars

 

 

 

 

 

EINKENNI

Lykilorð: Upphafning
Pláneta: Neptúnus
Höfuðskeppna: Vatn
Litur: Sægrænn
Málmur: Tin
Steinar: Ametýst, ópall
Líkamshluti: Fætur, sogæðakerfi
Frægir fiskar Cindy Crawford, Michelangelo, Glenn Miller, Fabio, Peter Fonda, Árni Johnsen, Kurt Russel, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Nat King Cole.

Fiskurinn  Flest stjörnumerkin munu í ár rækta sína andlegu hlið í ríkari mæli en áður. Fyrir fiskinn, sem er hvort sem er á kafi í hinu óáþreifanlega, tekur steininn úr í ár. Hann verður því utan við sig. Þó að honum sjálfum líði mjög vel geta aðrir upplifað fiskinn félagslega heftan þetta árið.
Um leið er hætt við að fiskurinn hætti að fylgjast með gluggapóstinum og hann þarf mikinn svefn. Hann vill helst sofa fram til hádegis allar helgar og aðrir fjölskyldumeðlimir geta orðið svolítið pirraðir á því. Góðu fréttirnar eru þær að í þessu ástandi er fiskurinn skapandi sem aldrei fyrr. Hans listrænu hliðar eru upp á sitt besta og þetta er árið til að mála, yrkja ljóð, hanna og fá hugmyndir sem aðeins séní fá. Fiskar sem starfa í menntageiranum, eru í skóla og í nýsköpun munu einkum ná miklum árangri.
Fiskurinn mun auðveldlega reka augun í maka ef hans andlegi félagi verður á vegi hans í ár. Það er ekki líklegt, árið 2015 er líklegra til þess. Þó er sennilegt að einhver verði ástfanginn af fisknum í laumi og láti hann ekki vita strax.

 

NCO eCommerce netkaup

Netkaup Stjörnuspáin 2014 er eingöngu hugsuð sem hvatning og/eða til gamans fyrir  hugmyndabankann þinn, stefnumörkun og markmiðssetningu.   Gefum, öflum og höfum gaman.

Gefum, öflum og höfum gaman   –   www.netkaup.is