// archives

Efnahagsbati

This category contains 2 posts

Er efnahagsbatinn loksins mættur? Ólafur Margeirsson


Snemma í desember birti Hagstofan tölur varðandi landsframleiðslu, og þar með hagvöxt, fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2011. Miðað við hvers konar kjaftshögg hagkerfið gaf sjálfu sér árin 2007-2009 með öllum sínum skuldum og gjaldþrotum komu tölurnar satt best að segja mörgum á óvart: 3,7% hagvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins 2011 m.v. sama tímabil 2010.
Seðlabankinn greip gæsina á lofti og sagði að efnahagsbatinn væri svo sannarlega kominn til að vera. Aðalhagfræðingur Seðlabankans mætti til Stöðvar 2 og sagði að það væri allt að gerast, einkaneyslan og fjárfestingin væru að koma sterk til baka. Þess vegna ætti enginn að vera hissa á því að stýrivextir hafi verið hækkaðir, sérstaklega þar sem samið hafði verið um ríflegar launahækkanir fyrr á árinu (sem, þrátt fyrir efnahagsbatann, voru alltof ríflegar og myndu óumflýjanlega enda í verðbólgu í gegnum víxlverkun launa og verðlags).
Ríkisstjórnin greip líka tækifærið, sagði hagkerfið komið á rétta braut og engin þörf á því að halda áfram að skæla út af skuldum og atvinnuleysi og fleira. Sumir forsvarsmanna hennar drógu jafnvel vafa tölur Hagstofunnar um svo og svo mikla fólksflutninga.
Margir efuðust þó um efnahagsbatann einfaldlega vegna þess sem þeir sáu í kringum sig, s.s. raðirnar hjá Mæðrastyrksnefnd. Þá voru skuldirnar sem komu hagkerfinu í vandræðin sem það er í að stórum hluta enn til staðar, m.a. vegna verðtryggingar og of hárra vaxta, þrátt fyrir afskriftir (ólöglegra!) gengislána, 110% leiðarinnar og annarra sértækra aðgerða.
Það eru allar líkur á að þær efasemdirnar séu á rökum reistar.
Ísland er í efnahagsreikningskrísu
Í nýjasta tölublaði efnahagstímaritsins  „Hagfræði hins raunverulega heims“ (Real-World Economics Review) birtist pappír eftir Richard Koo, höfundar The Holy Grail of Macroeconomics. Í þeirri bók lýsti hann japanska hagkerfinu frá 1990 (ásamt Bandaríkjunum í Kreppunni miklu og Þýskalandi upp úr 2000) sem hagkerfi í efnahagsreikningskrísu (e. balance sheet recession).
Efnahagsreikningskrísa er fyrirbæri sem á sér stað í hagkerfinu öllu þegar skuldir hafa vaxið svo mikið, s.s. vegna eignabólu sem drifin er af lánsfjárvexti, að ómögulegt er að borga þær til baka með þeim tekjum sem af eignunum myndast og á sama tíma að viðhalda „venjulegum“ efnahagsumsvifum. Þetta á sér stað yfir hagkerfið allt vegna þess að skuldaútþenslan var almenn; mikill meirihluti heimila, fyrirtækja og banka tók þátt í henni og stofnuðu til lánsfjárskuldbindinga sem þarf að greiða til baka.
Þegar endurgreiðslutíminn rennur upp kemur hins vegar í ljós að eignirnar sem búnar til voru með lánsfénu gefa ekki af sér nægilegar tekjur (húsaleiga, sölutekjur af framleiðslu, o.s.frv.) til að geta greitt skuldirnar til baka og á sama tíma viðhaldið efnahagsumsvifum sem búast mætti við að væru raunin ef skuldirnar væru lægri og afborgunarþörfin af skuldum minni.
Því reyna þeir sem skulda, og þeir eru margir, að greiða lánin til baka með sparnaði og öðrum tekjum til að draga úr afborgunum í framtíðinni. Slíkt ferli kallast að minnka gírun efnahagsreikningsins (e. deleveraging), þ.e. reynt er að hækka hlutfall eiginfjár á móti lánsfé. Þar sem mikill meirihluti heimila, fyrirtækja og banka gerir þetta á sama tíma dregur úr efnahagsumsvifum og hagvöxtur verður lítill eða jafnvel neikvæður.
Helstu einkenni efnahagsreikningskrísu eru a) fyrirtæki og heimili taka fá lán frá bankastofnunum, b) almennur vilji til að draga úr skuldum sem allra fyrst, c) fjárhagslegar skuldir og eignir heimila, fyrirtækja og banka dragast saman og d) mjög lítil fjárfesting einkaaðila í sögulegu samhengi.
Fjárfestingin er lítil vegna þess að einkaaðilar eru að berjast, allir sem einn, við að minnka skuldirnar á efnahagsreikningnum. Á meðan forðast þeir sem heitan eldinn að taka lán sem myndi auka skuldirnar á efnahagsreikningnum. Þar með talin eru lán sem í venjulegu árferði og efnahagsástandi væru tekin til fjárfestingar í verksmiðjum, húsbyggingum, vegaframkvæmdum o.s.frv. Þegar fjárfesting hrynur og endar í langvinnri lægð er fátt um ráðningar á vinnuafli. Þar með hægist á hagkerfinu og endar í langvinnum en hægum samdrætti miðað við ef mun minni skuldir hefðu verið í hagkerfinu og vilji til lántöku og fjárfestinga verið til staðar.
Það eru allar líkur á að Ísland sé á kafi í efnahagsreikningskrísu. Séreignarsparnaður hefur verið tekinn út til að greiða af lánum, bankar hafa beinlínis kvartað yfir því að erfitt sé að fá fyrirtæki og heimili til að taka lán og fjárfesting er í sögulegri lægð. Einkennin eru sannarlega til staðar.
Hvað kemur þetta nýlegum hagvexti við?
Koo lýsir í sínum pappír – „Heimurinn í efnahagreikningskrísu“ – því sem hann kallar „Lehman áfall“. Það lýsir sér í því að hagkerfi sem er komið í efnahagsreikningskrísu, þar sem fyrirtæki, bankar og heimili eru byrjuð að draga saman gírun efnahagsreikningsins, verður fyrir áfalli sem sekkur því algjörlega. Upp úr öldudalnum rís hagkerfið svo aftur þegar búið er að hreinsa „Lehman áfallið“ úr kerfinu en upprisan er aðeins tímabundin því skuldirnar sem ollu efnahagsreikningskrísunni í byrjun eru ennþá til staðar og endurreisnin verður ekki til frambúðar fyrr en búið er að hreinsa skuldirnar af efnahagsreikningi heimila, fyrirtækja og banka. Og það verður að gilda í öllum tilvikum.
Mynd úr pappír Koo sem lýsir Lehman áfalli
„Lehman áfallið“ í Bandaríkjunum var vitanlega gjaldþrot Lehman bankans í september 2008. „Lehman áfallið“ í tilviki Íslands var gjaldþrot íslensku bankanna í október 2008. Efnahagsreikningskrísan – ljósblái punktaferillinn – var samt löngu byrjuð á Íslandi fyrir þann tíma og má nefna sem dæmi að hlutabréfaverð toppar um sumarið 2007, nafnverð fasteigna lækkaði frá og með febrúar 2008, mörg fyrirtæki voru komin í eiginfjár- og lausafjárvandamál í lok árs 2007 og Kaupþing notaði frasann að bankinn „skilaði sínu meðan hann minnkaði gírunina“ (e. delivering while deleveraging) þegar rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 var kynnt. Hagkerfið allt var komið í bullandi efnahagsreikningskrísu löngu fyrir október 2008.
Þegar bankarnir urðu gjaldþrota húrraði íslenska hagkerfið niður – það fylgdi dökkbláa ferlinum á myndinni hér að ofan í staðinn fyrir að halda áfram á ljósbláa ferlinum. Hagvöxtur árin 2008-2010 var -9,3%. Fall bankanna – „Lehman áfallið“ – var típísk fjármálakrísa þar sem allt gerist hratt og enginn veit hvað gerist næst. Slíkt panikástand er „lagað“ með því að redda bankakerfinu út úr vandræðunum með þrautalánveitingum frá seðlabankanum, eiginfjárframlagi hins opinbera til banka og annarra almennra opinberra aðstoðaraðgerða sem ætlað er að slökkva mestu eldana.
Þegar búið er að lappa upp á bankakerfið deyr mesta öngþveitið í hagkerfinu út og hagvöxtur lætur sjá sig á ný. Það er uppsveiflan á dökkbláa ferlinum hér að ofan og það er 3,7% hagvöxturinn fyrstu níu mánuði ársins 2011.
Munurinn á efnhagsreikningskrísu og típískri fjármálakrísu
En upprunalega vandamálið – efnahagsreikningskrísan – er ennþá til staðar þótt búið sé að laga mesta öngþveitið í kringum „Lehman áfallið“ sjálft.
Upprunalega vandamálið, þ.e. efnahagsreikningskrísan, er skortur á viljanum til að taka lán, vegna þess að fólk og fyrirtæki eru að berjast við að minnka skuldir sínar, meðan „Lehman áfallið“ er vandamál sem lýsir sér í því að enginn vill veita lán.
Hið síðarnefnda er fjármálakrísa eins og þær gerast bestar með paniki, biðröðum í bönkum, almennum skorti á lánsfé, því bankarnir geta ekki veitt lán vegna eiginfjárvandamála, og himinháum vöxtum á millibankamarkaði. Efnahagsreikningskrísa er allt annars eðlis. Þá eru bankarnir troðfullir af peningum, eru jafnvel með góða eiginfjárstöðu og lánsfé er meira en nóg, þveröfugt við það sem gerist í fjármálakrísum. En það vill enginn taka lán vegna þess að allir eru að reyna að borga skuldir til baka en ekki auka við þær. Og þá deyr fjárfesting út og með henni landsframleiðsla og atvinnumöguleikar.
Fjárfesting á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Ísland lendir í klassískri eigna- og fjárfestingabólu sem drifin er af lánsfé og endar með hvelli 2007. Fjárfesting hefur aldrei verið jafn lítil innan íslenska hagkerfisins og nú sem er eitt af helstu einkennum efnahagsreikningskrísa. Annað áberandi einkenni er skortur á eftirspurn eftir lánsfjármagni. Tölur fyrir 2011 eru fyrstu níu mánuðir ársins.
Einfaldasta og skjótvirkasta aðferðin til að laga efnahagsreikningskrísu er að nota efnahagsreikning seðlabankans á svipaðan hátt og hann er notaður til að redda bankakerfinu í típískum fjármálakrísum en láta féð ekki af hendi rakna til bankanna heldur beint til heimila og fyrirtækja og skylda þau til að greiða lán til baka með fénu frá seðlabankanum. Það er hins vegar aldrei gert, m.a. vegna þess að hagfræðingar þekkja yfirleitt ekki til efnahagsreikningskrísa. Önnur langvinnari aðferð er að gefa einkaaðilum, þ.e. heimilum og fyrirtækjum, möguleika á því að taka til á sínum efnahagsreikningi. Það er m.a. gert með því að dúndra vöxtum niður í nánast ekki neitt og með því hvetja til endurfjármögnunar eldri og dýrari lána. Með því minnkar endurgreiðsluþörfin í hverjum mánuði og meira er eftir af tekjunum til að eyða í einkaneyslu og fjárfestingar.
Dugi ekki að lækka vextina niður í nánast ekki neitt, eins og er raunin í Bretlandi, Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og víðar, verður að finna tekjur til handa þeirra sem eru að reyna að minnka útistandandi lán sín en slíkt er einkum gert með opinberum fjárfestingarverkefnum og í gegnum útflutning. Það gerðist í Bandaríkjunum upp úr Kreppunni miklu, í Þýskalandi upp úr 2000 og í Japan frá og með 1990. Þegar fjárfesting í framleiðslufjármagni og eftirspurn eftir lánum eykst svo skuldaútþensla einkaaðila á sér aftur stað innan hagkerfisins má draga úr slíkum aðgerðum hægt og rólega og jafnvel setja takmarkanir á lánamöguleika bankakerfisins, s.s. með því að tengja saman veitingu útlána og viðskiptajöfnuð og/eða gjaldeyrisforða.
Mesta eitrið sem hægt er að gefa hagkerfi í efnahagsreikningskrísu er hins vegar að hækka vexti og skera um of niður í ríkisfjármálum, sérstaklega fjárfestingarverkefnum. Þá er mun erfiðara að berjast við efnahagsreikningskrísu ef ekki er hægt að auka útflutning með fellingu nafngengis gjaldmiðilsins.
Efnahagsreikningskrísur eru ekkert gamanmál, það vita Japanir best og þeir sem ennþá muna eftir Kreppunni miklu. Þess vegna mega Íslendingar ekki halda að skulda- og efnahagsvandamálið sé leyst þótt ágætur hagvöxtur hafi mælst og óhætt sé því að hækka vexti eða segja að „botninum sé náð“.

(ensk  og styttri útgáfa birtist fyrst á www.icelandicecon.blogspot.com)
www.netkaup.is
twitter.com/netkaup

Lán, bænir og vonir í fjármálum – Fyrirspurnir til Nouriel Roubini

Fyrirspurnir til prófessors Nouriel Roubini New York University.   Mjög áhugaverð svör.

Smellið á linkinn:

http://www.bloomberg.com/video/65339478/

Viðtal: Desember. 16 (Bloomberg) — Nouriel Roubini, the New York University professor


Hvað er að gerast í fjármálum heimsins ?

Hvað er mikilvægast að gera núna ?

Menn taka lán, biðja og vona.

En hvað gerist svo ?

www.netkaup.is